Bara að það séu brúnaðar ...
Nýbakaður Íslandsmeistari kom við áðan með medalíuna um hálsinn og frekar kát. Þær stelpurnar ætla að hittast í kvöld og halda upp á sigurinn þannig að hún fær ekki kvöldmatinn sem hún mátti velja ef þær ynnu fyrr en annað kvöld. Hún valdi sér kjötbollur og brúnaðar kartöflur; ég held að foreldrar hennar séu ekkert yfir sig spenntir.
En það hefði getað verið verra. Einu sinni þegar hún kom í mat til mín á afmælinu og mátti velja voru það bjúgu og brúnaðar kartöflur. Hún hefur líka fengið hangikjöt og brúnaðar kartöflur og eitthvað fleira. Og stundum eintómar brúnaðar kartöflur.
Kannski ætti ég að prófa að bjóða henni upp á pizzu og brúnaðar?