Kostir við töf á tölvupósti
Ljósmyndarinn sem ég beið eftir um daginn kom áðan. Reyndar hafði komið í ljós í millitíðinni að hann var blásaklaus og blaðamaðurinn sem átti að senda hann til mín líka, hann hafði aldrei fengið tölvupóstinn sem ég sendi honum um staðfestingu á tímasetningu.
Þetta hefur gerst nokkrum sinnum að undanförnu, að tölvupóstar sendir úr vinnunetfanginu hafi ekki borist viðtakanda fyrr en eftir dúk og disk og maður veit auðvitað ekkert af því fyrr en seinna. Getur verið frekar bagalegt, eins og í þessu tilviki. Eins gott að ég var að elda úr um það bil ódýrasta hráefni sem til er, það er að segja lifur.
En ég fæ fyrir vikið lifur með rifsberjasósu og smjörsteiktum sveppum í matinn aftur í kvöld. Fyrir utan að ég ákvað að breyta uppskriftinni ögn og nýja útgáfan er bara betri.
Svo að þetta fór nú þrátt fyrir allt bara vel.