Ég fann mandarínuna, en veit sveimér ekki hvort það er gott tákn eða slæmt. Hún var á miðjum eldhúsbekknum. Búálfarnir liggja undir grun.
Á dögunum varð ég fyrir því að bók sem mér var ætluð lenti fyrir misgáning til Ísafjarðar og hefur ekki til hennar spurst síðan. Sennilega lenti hún ofan í kjörkassa þar - þetta var jú Jón forseti, þingmaður Ísfirðinga - og þá finnst hún líklega í endurtalningunni. Ég held allavega í vonina um það. Hún kemur örugglega á endanum, ekki síður en makedónska (dóníska?) matreiðslubókin sem var hálft ár á leiðinni frá Kanada. Hraðametið á aftur á móti bókin sem ég pantaði frá Óman og var komin mér í hendur tveimur dögum seinna, mér næstum að kostnaðarlausu. Eftir það hef ég mikið álit á ómönskum bókaútgefendum, og ómönskum mat reyndar líka, það er að segja því sem ég hef prófað úr bókinni.