Póstvesen
Ókei, nú er ég hætt að panta bækur frá amazon.co.uk. Þeir virðast vera farnir að nota DHL fyrir venjulegar sendingar í staðinn fyrir póstinn eins og þeir hafa alltaf gert hingað til. Það er mun dýrara og óþægilegra.
Á dögunum fékk ég sendingu frá þeim með DHL þótt ég hefði beðið um venjulega sendingu, ekki hraðpóst. Þurfti að borga DHL 1970 krónur en fyrir næstum jafnverðmikla sendingu með póstinum stuttu áður borgaði ég innan við þúsundkall (vaskurinn er auðvitað jafnhár í báðum tilvikum, munurinn liggur í gjaldinu sem flutningsþjónustan tekur).
Svo var ég ekki heima þegar DHL-sendillinn kom. Ef þetta hefði verið pósturinn hefði ég getað komið við niðri á pósthúsi á leiðinni í vinnuna morguninn eftir og náð í sendinguna. Hjá DHL get ég sótt pakkann inn í Sundabakka - sem er ekki beint í leiðinn fyrir bíllausa manneskju og tekur mig lágmark klukktíma - eða ég get hringt og fengið pakkann sendan aftur. Nema í þessu tilviki var mér lofað að hann kæmi á milli eitt og tvö um daginn (reyndar lenti ég í veseni með að sannfæra þann sem svaraði í símann um að ég ætti pakka hjá þeim yfirleitt af því að sendillinn hafði ekki skrifað eitthvert númer sem hann átti að skrifa á tilkynninguna); ég beið og beið og hann kom klukkan rúmlega sjö um kvöldið. Hann talaði ekki orð í íslensku og ég sá ekki alveg tilgang í að skamma hann.
Ekki nóg með það, heldur fékk ég í dag senda rukkun frá DHL fyrir 1970 krónunum sem ég borgaði þeim með debetkorti fyrir rúmri viku.
Ég hafði samband við amazon.co.uk og þjónustufulltrúinn þar baðst afsökunar en sagði ,,At the moment, we are not able to promise you that your future orders will not be dispatched by this method." Passar, ég var að panta frá þeim í gær og núna fékk ég tölvupóst um að sendinging væri farin af stað ... með DHL.
Kannski ég neiti viðtöku. En allavega hika ég við að versla við amazon.co.uk á næstunni.