Smiðurinn
Það var haldið upp á fimm ára afmæli Sauðargærunnar í gær. Afmælishaldið tókst ljómandi vel og drengurinn fékk margar góðar gjafir eins og vera ber.
Meðal annars fékk hann smíðatól. Eða lagaradót eins og það heitir hjá honum. Alvörugræjur og þar á meðal alvörusög.
Hann ákvað að prófa sögina og réðist til atlögu við stofuborðið. Til allrar hamingju var hin amma hans nærstödd og benti honum snarlega á að hann mætti ekki saga í borðið.
-Ha, má ég það ekki? spurði Sauðargæran steinhissa og skildi ekkert í þessu.
Þegar gestirnir voru farnir var ég eitthvað að skoða borðið; það voru þrjú örlítil hök í borðbrúnina (ekkert sem ekki má pússa burt). Ég kallaði í drenginn og áréttaði að það væri nú ekki fallegt að saga sundur stofumublur foreldra sinna.
-Ég sagaði ekkert í borðið, sagði drengurinn.
-Nú, hvað er þetta þá? spurði ég og benti á hökin.
-Ég var bara að saga burtu skít, sagði hann blásaklaus á svip.