Heimabakað í kreppunni
Brauð dagsins er ostabrauð. Ég ætlaði eiginlega að baka indverskt flatbrauð - eða steikja það úr skírðu smjöri á pönnu - en var búin að gleyma að gasið kláraðist í fyrradag, það fórst fyrir hjá mér að panta nýtt í gær og heimsendingarþjónustan er bara á milli 3 og 9 (vonandi man ég nú eftir að panta meira á eftir). Svo að ég notaði deigið bara í venjulegt brauð í staðinn og stráði rifnum osti og herbes de provence yfir áður en það fór í ofninn. Namminamm.
Ég er alltaf að verða hrifnari af þessari brauðbökunaraðferð sem ég lýsti hér um daginn. Samt hef ég bara notað þessa einu uppskrift enn sem komið er - en bakað úr henni ótrúlega fjölbreytt brauð, pítsur, bollur og fleira. Ég hef bakað næstum á hverjum degi síðasta mánuð eða meira (en bara búið til deig einu sinni eða tvisvar í viku).
Kosturinn er líka að það er svo auðvelt að baka fyrir einn - eða baka fyrir marga með stuttum fyrirvara.
Fyrir utan náttúrlega hvað það er mikill sparnaður að því að baka brauðið sitt sjálf/ur. Hver deigskammtur (1 kg hveiti) dugir mér í 4-5 brauð og kostar u.þ.b. 125 krónur - er það ekki minna en eitt rúnnstykki kostar sumstaðar? - sem þýðir svona 25-30 krónur pr. brauð (rafmagn til að hita ofninn reyndar ekki innifalið).