Kirkjuklukkur og reykingamenn
Svo að ég haldi áfram að telja upp kosti, reyndar ekki við einbýli í þetta skipti, heldur við Grettisgötuna: Nú er ég komin það langt burt frá Hallgrímskirkju að páskadagsmorgnar eru mun friðsælli en á Kárastígnum. Ég vakna allavega ekki við kirkjuklukkurnar lengur .
Reyndar gerði ég það ekki heldur á Kárastígnum fyrstu árin mín þar þótt ég væri þá með svefnherbergi Hallgrímsmegin í íbúðinni. En maður verður svefnstyggari með aldrinum.
Aldrei datt mér samt í hug að heimta lögbann á kirkjuklukkurnar eins og mig minnir að einhver hafi einhverntíma gert. Maður verður að þola ákveðna hávaðamengun. Svona rétt eins og með reykingamenn. Ekki dettur mér í hug að heimta reglur um að reykingamenn megi ekki reykja rétt við inngöngudyr þótt það þýði að ég verði af og til að labba gegnum reykinn. Ég get látið það fara í taugarnar á mér (og hóstað eins og pestarrolla ef ég er með bronkítis, sem ég er akkúrat með núna). En einhvers staðar verða nú vondir að vera.
Og ef kirkjuklukkur eiga einhverntíma að fá að hljóma snemma morguns er það víst á páskadagsmorgun.
En ég er líka flutt af Kárastígnum.