Baunir og bollur
Jæja, sjö lítrar af baunasúpu komnir í pottinn ... Ég ætla ekki einu sinni að reyna að gera fjölskyldunni til hæfis í ár. Ég þekki mitt heimafólk og það verður kvartað sama hvað ég geri.
Ég ætlaði að fara að segja að það hefði allavega ekkert verið kvartað yfir bollunum í bollukaffinu á sunnudaginn - nóg var hesthúsa af þeim - en svo mundi ég að Boltastelpan hafði tuðað um að þær væru of líkar á litinn, bara hvítar og brúnar (rjómi, vanillukrem, súkkulaði í ýmsum myndum og karamellusósa), engar með jarðarberjum eða bleiku kremi. Og Sauðargæran rukkaði mig stíft um rúsínubollur sem ég hafði víst einhverntíma verið búin að lofa honum að baka en gleymdi. Svo að hann borðaði einar fimm súkkulaðigerbollur í staðinn.