Silence is golden ...
Ég vaknaði næstum heyrnarlaus í morgun. Eins og ég hef áður sagt frá kemur þetta fyrir mig af og til; ætti að lagast á eftir. En það er ekki oft sem heyrnin bilar á báðum eyrunum í einu og þessa stundina heyri ég nú ekki mikið. Tók eftir því þegar ég var að labba í vinnuna áðan að ég heyrði (lágt) í bílum um leið og þeir óku framhjá mér - en enginn umferðarniður; Reykjavík var undarlega þögul og þar sem ekki voru nú margir á ferli á Grettisgötunni var þetta svolítil Palli-er-einn-í-heiminum-tilfinning.
Þetta er nú ekkert skemmtilegt svosem. Hefði getað verið þægilegt stundum hér á árum áður en nú sé ég enga kosti við heyrnarleysi þótt tímabundið sé. Ég er ekki mikið fyrir hávaða og læti en tæki þó smáhávaða fram yfir þetta (nema reyndar ef Geir Ólafs færi að syngja nálægt mér).
Annars gerðist þetta líka í föstuinngangsvikunni í fyrra. Tengist kannski óhóflegu bolluáti eða einhverju slíku. Hver veit.