Skagfirsk sveifla í hálfa öld
Kannski maður ætti að bregða sér norður á Sæluviku? Þó ekki væri nema til að halda upp á fimmtíu ára hljómsveitarafmæli Geirmundar; mér skilst að þessa dagana sé hálf öld síðan Geiri hóf feril sinn með Ferguson-hljómsveitinni (sem eins og ég hef áður sagt frá og hef eftir móður minni var kölluð svo af því að enginn meðlimanna var með bílpróf svo að þeir mættu á dráttarvélum til að spila á böllum).
Föstudagur 2. maí 20:30 50 ára tónlistarafmæli Geirmundar Valtýssonar
Íþróttahúsið á Sauðárkróki
Húsið opnar kl. 20:00, dagskrá hefst kl. 21:00. Dansleikur að
lokinni skemmtun með Hljómsveitum Geirmundar Valtýssonar.
Aldurstakmark 18 ár. Verð kr. 2000 á skemmtun og dansleik.
Það kostaði held ég 300 krónur á böll þegar ég byrjaði að fara og þá var aldurstakmarkið 16 ár (en ég var 15).
Nei, Geiri er kannski enn á fullu í sveiflunni en ég er farin að slappast með árunum. Svo að líklega fer ég ekki fet.
Annars sé ég að á skagafjordur.com segir að Sæluvikan byrji fimmtudaginn 27. apríl og ljúki fyrstu helgina í maí. Ætli Skagfirðingar séu komnir með sértímatal?