Það kemur ekkert sumar
Nú er komið upp vandamál á mínu heimili, hugsanlega kemur ekkert sumar á fimmtudaginn.
Það er nefnilega löng hefð fyrir því að bera fram pönnukökur á blárósóttum diski á sumardaginn fyrsta. Við erum sammála um að þjóðlegri sé ekki hægt að vera.
Nema það var að renna upp fyrir mér að síðasti gamli blárósótti diskurinn minn brotnaði í haust sem leið.
Hvað gera bændur nú? Ég verð líklega að fara í Góða hirðinn á eftir og skima eftir blárósóttum diski - en ef hann finnst ekki þar er úr vöndu að ráða.
Big problem, eins og hann Múhammeð leiðsögumaður sagði oft og mörgum sinnum í Marokkóferðinni og ekki alltaf af miklu tilefni. En þetta er vissulega big problem.