Hvað heldur fólk eiginlega um mig ...
Það situr oftast sölukona í básnum mínum á kvöldin og um helgar. Hún er samt ekkert í því að breyta stillingum á stólnum eða neitt svoleiðis eins og sá sem gerir Gurrí lífið leitt. Neinei. Hef ekkert upp á hana að klaga.
Á dögunum kallaði hún í samstarfskonu mína sem var að vinna frameftir og spurði hvers konar uppskriftir þetta væru eiginlega sem hún Nanna væri að vinna við. Og benti á nokkrar myndasíður sem lágu á skrifborðinu mínu.
Síður úr súpersexbókinni sem ég hef verið að prófarkalesa.
Samstarfskonan flýtti sér að útskýra að ég væri nú að vinna með ýmislegt fleira en mataruppskriftir. En sölukonunni lá fleira á hjarta. Benti á mynd sem hangir hér upp á vegg og spurði: -Er þetta maðurinn hennar Nönnu? Mikið finnst mér hann óásjálegur.
Þetta var auðvitað myndin af Sean Connery á rauðu bleyjunni. Skil reyndar ekki smekk konunnar, hann er svo flottur ...
En það er semsagt verið að eigna mér ýmsa menn þessa dagana.