Grillkaup í aðsigi
Ég þarf að fara að kaupa mér nýtt grill. Það sem ég var með á Kárastígnum var svo stórt að það mundi alls ekki komast fyrir á mjóu svölunum á Grettisgötunni svo að ég gaf einkasyninum og skylmingastúlkunni það þegar ég flutti og það er enn á Kárastígnum.
Og svo var ég bara eiginlega ekki í neinu grillstuði í fyrrasumar og það komst aldrei í verk að kaupa grill; reykgrillið sem ég eignaðist einu sinni stendur reyndar á svölunum og það má bjarga sér með það þegar á þarf að halda en ég er samt ákveðin í að fjárfesta í nýju grilli. Ég finn nefnilega á mér að ég er að fara aftur inn í grillfasa. (Mín eldamennska er býsna fasaskipt, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum.)
Mig vantar grill sem er frekar lítið um sig en með tiltölulega stóran grillflöt, kraftmikið og gott. Er mest að velta fyrir mér litlu Weber-grilli (svona eins og þessu) en ef einhver veit um álíka eða betri kost eru allar ábendingar vel þegnar.
En ég er ekki viss um að ég grilli heilan kalkúna á þessu grilli, til dæmis. Og þó, á eftir að skoða það betur ,,in person", erfitt að gera sér grein fyrir því án þess. Og svo get ég reyndar sjálfsagt fengið að nota grillið á Kárastígnum ef grípur mig skyndileg löngun til að grilla kalkúna.