Sumum er bara ekki hægt að gera til hæfis
Baunasúpukvartanirnar í ár takmörkuðust að mestu við borðbúnaðinn: Ausan væri of stór (minni ausa hefði sokkið til botns í stóra súpupottinum), súpudiskarnir of litlir (rétt, diskarnir sem ég hef hingað til notað hafa týnt tölunni að undanförnu svo að ég þurfti að nota aðra), skeiðarnar of breiðar (reyndar bara fyrir munninn á Boltastelpunni, hún fékk aðra) ... já, og að það væri of mikið af súpu (rétt) og að hún væri of heit.
Sauðargæran gerði súpunni lítil skil, enda hafði hann fengið baunasúpu á Hagaborg í hádeginu.
-Hún var öðruvísi, sagði hann.
-Nú, hvernig? spurði ég.
-Hún var eins og súpa, svaraði drengurinn og meinti að hún hefði verið þynnri. Við urðum ásátt um að súpan mín væri baunagrautur. En hann borðaði nú ekki mikið af henni þrátt fyrir það.
En það er gomma af súpu eftir þótt henni væru gerð góð skil; ég eldaði bara svo mikið. Dálítið af kjöti líka. Ætli ég frysti þetta ekki og borði baunasúpu einu sinni í viku fram á vor.
En ekki á morgun samt. Þá er ég nefnilega að fara á súkkulaði- og vínsmökkunarnámskeið.