Spelt-strombólí
Af því að það er orðið langt síðan ég hef birt uppskrift hér ætla ég að koma með uppskrift að strombólí. Speltið er bara til tilbreytingar, það er alveg eins hægt að nota brauðhveiti eða bara venjulegt hveiti.
Strombólí er fyllt, ítalskt gerbrauð, kennt við eldfjallaeyju norðan Sikileyjar. Sagt er að það fái nafn sitt af því að þegar brauðið bakast bráðnar osturinn og þrýstist út um götin á brauðinu eins og glóandi hraun ... Venjulega er notað hveiti en hér er spelt-útgáfa, fyllt með tómötum, klettasalati og þrenns konar osti. Hægt er að nota margt annað í fyllinguna, t.d. hráskinku, áleggspylsur, kryddjurtir o.fl.
Spelt-strombólí
400 ml vatn, ylvolgt
1 ½ msk. þurrger
1 msk. hunang
2 msk. ólífuolía (og meira til penslunar)
2 tsk. fínt salt
um 700 g speltmjöl
Settu vatn, ger og hunang í hrærivélarskál og láttu standa í nokkrar mínútur, eða þar til gerið freyðir. Blandaðu þá olíu og salti saman við og síðan mestöllu speltinu.
Hnoðaðu deigið mjög vel og bættu við meira spelti eftir þörfum, þar til deigið er hnoðunarhæft með hveitstráðum höndum en þó fremur lint og rakt. Mótaðu það í kúlu, settu í skál, stráðu svolitlu hveiti yfir, breiddu viskastykki yfir skálina og láttu lyfta sér við stofuhita í um 1 ½ klst., eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
Sláðu deigið niður og hnoðaðu það lauslega. Flettu það út í ferhyrning, um 40x40 cm. Dreifðu fyllingu á 2/3 af deiginu og rúllaðu því síðan upp frá þeim kanti sem fyllingin er á, eins og rúllutertu. Settu rúlluna á bökunarpappír, klíptu endana saman og þrýstu rúllunni niður með lófunum til að fletja hana sem mest út.
Láttu brauðið lyfta sér á meðan ofninn er hitaður í 225°C. Þrýstu svo fingurgómunum djúpt niður í það á nokkrum stöðum til að móta holur (eða gerðu holur með sleifarskafti). Penslaðu brauðið með ólífuolíu og bakaðu það á næstneðstu rim í 20-25 mínútur, eða þar til það er gullinbrúnt og skorpan stökk.
Láttu brauðið kólna dálítið áður en skorið er í það.
Þriggja osta fylling:
lófafylli af klettasalati
10-12 kirsiberja- eða konfekttómatar
½ Höfðingi
1 kúla mozzarellaostur
3-4 msk. fetaostur í kryddlegi
Dreifðu klettasalati á deigið. Skerðu tómatana í tvennt og dreifðu þeim yfir. Skerðu Höfðingja og mozzarellaost í sneiðar og dreifðu yfir, ásamt fetaosti. Settu e.t.v. meira klettasalat ofan á áður en þú rúllar deiginu upp.