Mér hefur tekist að rýma töluvert til í frystiskápnum um hátíðarnar, búin að nota andabringur, dádýrakjöt, kjúklingalifur, rækjur, lambalæri, kjúkling og ýmislegt fleira sem þar var. Eitthvað hefur bæst við á móti, leifar af Þorláksmessuskinkunni, hangikjöt (þetta ofsaltaða) og - tja, fátt annað nema þá afgangur af rauðkáli. Og ein Gressingham-önd sem ég keypti fyrir jólin og verður á borðum við tækifæri.
Í fyrra ætlaði ég að nota sem mest úr skápnum í janúar en rak mig þá á það að það var allt of mikið fínirí í honum. Núna held ég að það sé mest hversdags- og sunnudagsmatur sem er í skápnum, kjúklingar, lambakjöt, fiskur, innmatur og grænmeti. Svo að kannski gengur mér ætlunarverkið betur núna (veit þó ekki hvernig mér gengur að koma grísalöppunum ofan í efnafræðistúdentinn). Ég var til dæmis að taka út kjúklingavængi sem voru keyptir á tilboði í Bónus í haust; tilvalinn sunnudagsmatur í janúar. Þar sem ég hef sko örugglega ekki þyngst um jólin (hef verið frekar lystarlítil frá því á annan í jólum vegna veikinda, er þó að komast í lag núna) getur vel verið að ég djúpsteiki þá (Southern fried-kjúklingar eru í miklu uppáhaldi hér á bæ) en það getur líka verið að ég velti þeim upp úr hveiti eða maísmjöli blönduðu gommu af hot wings-kryddi, raði þeim á bökunarplötu og baki í ofni. Svona til að þykjast vera heilsusamleg.