Persónulega finnst mér óttaleg della að eyða þúsundum eða tugþúsundum króna í einhverjar rakettur sem skotið er upp í loftið og framkalla marglitar eldglæringar sem endast í örfáar sekúndur í besta falli. Ég dauðsé eftir þessum peningum. Einu sinni var ég líka í samkvæmi á gamlárskvöld þar sem einnig var staddur hjálparsveitarskáti (eða eitthvað slíkt) sem hafði unnið mikið við flugeldasölu; í hvert sinn sem einhver blossi birtist á himinhvolfinu verðlagði hann skotið samstundis og sú skýrslugerð varð ekki til að hvetja mig til að eyða peningunum mínum í flugelda.
Aftur á móti byrjar útsala hjá amazon.co.uk á gamlársdag, eða daginn áður. Þannig að ég athugaði hvaða upphæð ég hefði hugsanlega eytt í einhverjar almennilegar tertur og rakettur sem brenna upp á nokkrum sekúndum og ekkert sést svo eftir af nema rusl og sóðaskapur, fór svo á amazonútsöluna og fann nokkrar bækur sem mig langaði verulega í - Modern Classics 1 og 2 eftir Donnu Hay, Travels With a Hot Wok eftir Ken Hom, Rick Stein's Seafood School Cookbook, Raymond Blanc's Foolproof French Cookery, og svo bætti ég við The Da Vinci Code af því að hún kostaði sama og ekkert (innbundin) og það er bók sem ég hef ætlað mér að lesa hvort eð er. Kostaði allt til samans innan við 40 pund. Og þar sem ég var ekki búin með flugeldafjárveitinguna til sjálfrar mín fór ég líka á abebooks, skoðaði lagerana hjá fornbókasölum víða um heim og endaði á að panta tvær bækur, aðra frá fornbókaverslun í Suður-Afríku en hina frá Kanada (en það var reyndar matreiðslubók frá Botswana).
Þannig að þið hin getið skotið upp rakettum. Ég ætla bara að horfa á tertuna sem Boltastelpan ætlaði að fá pabba sinn til að fjárfesta í. Og hjálpa Sauðargærunni að sveifla stjörnuljósi.