Áramótasúkkulaðiísinn verður bara tveggja laga í ár, ætli mér fyrirgefist það? Það er samt síst minna súkkulaði í honum en venjulega - nærri hálft kíló. Ég gleymdi að kaupa mjólkursúkkulaði, nennti ekki aftur út í búð og ákvað að hafa bara hin lögin þeim mun þykkari. Hindberjasósa eða ástaraldinsósa - hmm, það er spurning.
Ég skipti yfir á Floyd Uncorked á Travel-rásinni. Reyndar gæti nokkurn veginn hver einasti sjónvarpsþáttur Keiths Floyd heitið þetta, náunginn er svo gegnsósa. Þarna sá ég - nú veit ég afskaplega lítið um vínrækt en ég hef stundum séð vínekrur þar sem rósarunni vex við endann á hverri vínviðarröð - þetta er víst vegna þess að sömu myglusveppir og fleiri plágur leggjast á vínvið og rósarunna en sjást fyrr á rósunum. Þetta er semsagt viðvörunarkerfi; þegar fer að sjá á blöðum rósarunnans er kominn tími til að sprauta vínviðinn.