Einhvern tíma var gefin um það yfirlýsing hér á bæ, þar sem heimilið þótti óþarflega hefðasnautt, að ef eitthvað hefði verið gert tvö ár í röð skyldi það þar með teljast til hefða.
Gott og vel. Þess vegna er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi nokkuð að skrifa áramótapistil; ég skrifaði einn stuttan slíkan í fyrra og ef ég endurtek það er þar með komin hefð. Og ég er ekkert endilega jafnhrifin af hefðum og ég var fyrir nokkrum árum. Þarf minna á þeim að halda núna.
Að vísu var ég að reyna að skrifa eitthvað svona áðan og komst að því að ég gat það ekki. Það sem ég hefði þurft að skrifa um, það sem hafði mest áhrif á mig á árinu og mun hafa mest áhrif í nánustu framtíð að minnsta kosti - það eru hlutir sem ekki eiga erindi á þennan vettvang. Nei, ég er ekki að tala um neina stóra leyndardóma, bara eitt og annað sem ekki á heima hér eða snertir aðra meira en sjálfa mig.
Hvað mig varðar var þetta annars að mörgu leyti gott ár. Ég gerði kannski ekki mikið annað en að elda mat og skrifa. En það er þetta tvennt sem ég kann best og líkar best að gera hvort eð er. Svo að ég er afskaplega sátt við það.
Akkúrat núna var árið 2004 að ganga í garð í Japan en það er enn drjúg stund í að það komi hér. Ég held að það verði gott ár. En ég er líka bjartsýnismanneskja að eðlisfari.
Gleðilegt nýár og þakka fyrir samfylgdina síðasta árið. Eða árin/áratugina, eftir atvikum.