Haukar í hornum
Já, og Stjáni ætlar í formanninn bara.
Ég verð eiginlega að halda með honum þótt ég færi náttúrlega aldrei að kjósa hann. En við erum nú gömul bekkjarsystkini og sessunautar og allt það. Þannig að svona uppá samböndin ... Ég væri nú annars komin með ansi góð sambönd ef Stjáni yrði kosinn. Sjáum til:
VG - þar er náttúrlega Steingrímur, við vorum jú í sama genginu í MA, kenndu við Helga Skútu, og fyrsta veislan sem ég eldaði fyrir um dagana var einmitt í Skarðshlíðinni hjá Steingrími; átti að vera rjúpnaveisla en það náðist ekki að skjóta nógu margar rjúpur svo að það var boðið upp á lambalæri með rjúpunum og við Gulli brekka tókum að okkur matreiðsluna.
Samfylkingin - ég svosem þekki ekki Jóhönnu persónulega en ég þekki allavega Jónínu spúsu hennar, við unnum saman í nokkur ár. Og líklegir arftakar - ja, við Árni Páll sátum saman í einhverjum stjórnum og nefndum í AB í gamla daga og fór ágætlega á með okkur og svo var ég dómari í matreiðslukeppni Gestgjafans þegar Dagur vann önnur verðlaun. Svo að ég er með allt á hreinu þar.
Verra með Framsókn, ég man ekki til að ég sé með nein sambönd við forystumenn þar fyrst Páll á Höllustöðum er sestur í helgan stein (sonur minn og dóttursonur hans eru vinir og Framsóknarmaddömukakan sem einkasonurinn bakaði eitt sinn í afmælisgjöf handa vininum var bökuð í formi sem ég lagði til) en það er spurning hvað dugir manni að vera genetískur framsóknarmaður.
Þannig að ég verð eiginlega að styðja Stjána, þá á ég hauk í horni víðast hvar. Ekki að ég geti látið mér detta í hug nokkrar þær aðstæður þar sem líklegt er að ég þyrfti að eiga slíkan pólitískan hauk ... en maður veit aldrei ...