Búhnykkur í kreppunni
Hvítlauks- og rósmarínosturinn er tilbúinn. Mjög góður - kannski aðeins of mikill hvítlaukur en allavega betri en nokkur smurostur sem maður kaupir úti í búð. Heldur rjómakenndari en ostur sem er gerður úr eintómri mjólk, enda var uppistaðan það sem rann af mascarpone-ostinum og þar fer náttúrlega eitthvað af rjómanum gegnum grisjuna. Svo var þarna líka mjólk/mysa frá ostagerðartilraunum á miðvikudag og fimmtudag sem hellt var saman við og látið standa í ísskápnum þangað til í morgun og þetta var aðeins farið að súrna (hmm, nema það hafi verið sítrónusafinn ...) sem gerir ostinn bragðmeiri en ella.
Ég var að hugsa um í morgun að henda mjólkurafganginum en hætti við og fékk semsagt ein 115 g af þessum fína kryddjurtasmurosti út úr dæminu. Tók mig 10 mínútur í eldhúsinu og nokkurra klukkutíma bið.
Góð búbót í kreppunni - en ókei, kannski bara ef maður er í rjómaostsgerð í hjáverkum og nýtir ekki afgangsmjólkina/mysuna í annað ...