Áskriftaniðurskurður
Áskriftirnar að flestum útlendu matreiðslublöðunum sem ég kaupi eru að renna út á næstunni. Ég held ég sé ekkert að endurnýja þær, ekki á núverandi gengi. Þau eru reyndar ekki nema fjögur núna, hafa oft verið fleiri.
Þegar ég endurnýjaði áskriftirnar síðast borgaði ég á bilinu 5800-7200 fyrir hverja ársáskrift, að meðtöldum sendingarkostnaði til Íslands. Núna er þetta á bilinu 9000-11200 per blað svo ég tími því ekki. Það má nota aðrar leiðir til að fylgjast með því sem er að gerast í matarheiminum.
Þetta er þrátt fyrir allt ódýrara en ársáskrift að Gestgjafanum, hún er á tæpar 15000 krónur. En ég hef reyndar ekki verið áskrifandi að honum síðan ég sagði honum upp vegna blankheita eftir BSRB-verkfallið 1984.
Ég hef svosem verið áskrifandi að ýmsum matarblöðum frá ýmsum löndum gegnum tíðina; til dæmis rakst ég áðan á eintak af ungversku matarblaði sem ég var einu sinni áskrifandi að skamman tíma. Skildi að vísu ekki bofs en það var aukaatriði.