Öfug peningavandræði
Ég er enn ekki búin að komast að niðurstöðu um hvað ég á að gera við höfundarlaunatékkann minn. Bankinn minn kaupir ekki útlenda tékka þessa stundina, veit svosem ekki með aðra banka.
Maður hefði nú haldið að bankana vantaði einmitt gjaldeyri þessa stundina. Ekki að þessir fáu dollarar mundu segja stórt í það ginnungagap svosem, en samt ... Ég sem hélt að það væru íslensku krónurnar sem enginn vildi taka við þessa dagana.
Og nei, þetta er ekki tékki gefinn út á reikning hjá Lehmanbræðrum eða eitthvað svoleiðis, heldur hjá banka í Njújork sem ég veit ekki annað en sé sæmilega tryggur.
Ojæja. Tékkinn þolir nú nokkurra daga geymslu. Svo get ég skemmt mér við að veðja við sjálfa mig hvert gengið verður þegar ég fæ honum loksins skipt.