Lúxusvandamál, dollaraávísanir og banka-Gallup
Nú er ég í smávanda, sem í ljósi núverandi ástands má kannski kalla lúxusvanda.
Ekki að það var verið að gefa mér fulla körfu af ostum og gúmmulaði, það er lúxus en ekki vandi og ég kem því örugglega í lóg með hjálp góðra manna.
Ekki að mér er boðið út að borða í kvöld, það er líka lúxus þótt ég eigi eftir að fara í bað og punta mig og svona og megi ekki vera að því.
Ekki að mér er kannski boðið í veislu úti á landi um helgina, það væri vissulega lúxus þótt ég gæti átt í vanda með að koma mér þangað ef af verður.
Nei, vandinn er að í stað þess að ameríski útgefandinn minn setti höfundarlaunin inn á paypal-reikninginn minn sendi hann mér ávísun sem ég var að fá. Lúxusinn er að ávísunin er ansi miklu hærri en ég hélt, ég hafði ekki áttað mig á því að ég átti víst inni höfundarlaun allt frá 2005. Og dollararnir frá 2005, 2006 og 2007 eru nú töluvert verðmætari í krónum en þeir voru þá.
Vandinn fellst í því að ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við ávísunina. Fer ég bara með hana í bankann minn eins og ég hef gert hingað til og læt hann innheimta? Tekur hann við henni? Getur hann innheimt hana? Geri ég það þá strax eða bíð smá og athuga hvort dollarinn hækkar enn? Get ég kannski framselt hana til einhvers sem er að fara til útlanda og vantar dollara?
Og í morgun svaraði ég netkönnun Gallup um bankaþjónustu. Það var merkileg reynsla. Það fylgdi eiginlega afsökunarbeiðni á að vera að senda þetta út akkúrat á þessum tíma en þetta er einhver árleg könnun. Ekki vildi ég vera sá sem þarf að túlka niðurstöðurnar; ég skal alveg játa að sumum spurningunum (um þjónustu og svoleiðis) svaraði ég eins og ég hefði gert fyrir 2-3 vikum, öðrum (um traust og þess háttar) miðað við daginn í dag.