Fundið í skápunum
Ég er alltaf að uppgötva betur og betur hvað ég er nú fornbýl og luma á mörgu. Áðan fann ég til dæmis nokkrar biscotti inni í skáp og þá mundi ég eftir Vin santo-flöskunni sem ég kom með mér frá Ítalíu og er reyndar engin eðalsort held ég (örugglega ekki eins og 180 evru hálfflaskan sem ég hefði sennilega ekki tímt að kaupa þótt evran hefði verið á 22 krónur, hvað þá 226 á Visagengi).
En svo mundi ég að ég á í ísskápnum flösku af Mas Amiel Plenitude sem er vel drekkandi enn þótt hún sé búin að vera opin um tíma. Það var bara ekkert verra með biscotti-inu. Best að njóta þess meðan það er til. Ég get alltaf bakað biscotti, það er lítill vandi, en aftur spurning hvenær ég tími að kaupa gott desertvín næst.