Vondir kallar og framtíðin
Eg er búin að vera að reyna að setja mig inn í öll þessi bankahruns- og heimsósómamál eftir að ég kom heim og er eiginlega engu nær um hver er vondasti vondikallinn í þessu öllu saman. Hvort það er Davíð, Geir, Jón Ásgeir og verðbréfaguttarnir, Brown og Darling eða einhverjir allt aðrir. Það skiptir satt að segja voðalega litlu máli fyrir mig úr því sem komið er.
Það eina sem ég veit er að nú á ég allt í einu fullt af bönkum og svoleiðis og alveg svakalega mikið af skuldum. Sem ég þarf að borga og börnin mín og áreiðanlega barnabörnin líka, áratugi fram í tímann. Og þess vegna langar mig að hafa eitthvað meira um það að segja hvað verður gert við þessa banka og annað góss sem ég á allt í einu hlutdeild í. Svo að allt fari nú ekki aftur á sömu leið þegar flestir verða búnir að gleyma hörmungaárinu 2008 eftir fáein ár.
Svo að maður sé nú ekki að skuldsetja væntanleg langömmubörn verulega mikið líka.
Kannski er kominn tími til að bestustu konurnar taki við af vondustu köllunum.