Dollarastreymi
Eitthvað er ekki alveg í lagi í bókhaldsdeildinni hjá ameríska útgefandanum mínum - nú fékk ég tölvupóst með fyrirspurn um hvort væri í lagi að leggja höfundarlaunin inn á paypal-reikninginn minn. Mér flaug snöggvast í hug að segja jú, þó það nú væri, endilega bara, en ákvað svo að vera heiðarleg og minna á að ég hefði fengið höfundarlaunin greidd með tékka fyrr í mánuðinum.
Ég er reyndar enn ekki búin að fara með tékkann í banka og ég bætti því við að ef bankinn vildi nú ekki dollarana mína mundi ég kannski hafa samband við þau og láta ógilda tékkann og leggja upphæðina inn á paypal-reikninginn - en ætli ég láti ekki reyna á hitt fyrst. Það ætti að vera óhætt að bíða í nokkra daga í viðbót og sjá til. Dollarinn er jú að hækka, sýnist mér ...