Brennuvargar og sýrukeröld
Það eru víst 755 ár frá Flugumýrarbrennu í nótt. Nú er ég alin upp á svotil næsta bæ við Flugumýri og þekkti söguna og söguslóðir afskaplega vel en einhvern veginn sat alltaf í mér þegar ég var krakki og fram á þennan dag að þetta hefði verið að sumri til. Sem er auðvitað röng hugsun, menn voru ekki að eyða tíma í brúðkaupsveislur um hábjargræðistímann. Nógu andskoti köld hefur nú sýran í keraldinu verið þótt ekki bættist við skagfirskur haustnæðingur ofan í kaupið og mesta furða að Gissur karlinn hafi lifað þetta allt af.
En allavega, Ofsi, bókin hans Einars Kárasonar um brennuna og það allt kemur út í dag. Ég veit ekki til þess að kynningarstjóri Forlagsins sé búinn að skipuleggja neina brennu í samráði við Einar í tilefni útkomunnar en það þarf líklega ekki núna, það er svo margt annað að brenna (upp) þessa dagana og þjóðin öll dottin í sýrukeraldið. Ég hlakka allavega mikið til að lesa bókina - ein samstarfskona mín, sem er nýbúin að lesa hana, segist hafa verið afskaplega spennt við lesturinn - þótt hún vissi alveg hvernig sagan endaði ...