Komin úr ábyrgð
Já, ég er líklega komin úr ábyrgð og þarafleiðandi farin að bila oftar en áður. Fyrir fáeinum árum minntist ég á það að þótt ég væri þá búin að vera með heimilislækninn minn í fimm ár hefði ég þann tíma aldrei átt erindi til hans (né annarra lækna) en núna er hann búinn að senda mig til að minnsta kosti þriggja sérfræðinga, bara síðasta árið. Ekki að neinn þeirra hafi fundið neitt alvarlegt að mér svosem. Blóðmeinasérfræðingurinn komst að því að það væri ekkert að blóðinu í mér nema það er ekki eins og það á að vera, hjartasérfræðingurinn komst að því að ég væri harðbrjósta og gaf mér pillur til að mýkja hjartað og lungnasérfræðingurinn sem ég fór til í dag er sammála mér og heimilislækninum um að ég sé líklega með kæfisvefn. En það kemur væntanlega í ljós eftir rannsókn sem ég fer í innan tíðar.
Svo þarf ég örugglega að fá einhverja svona grímu til að sofa með. Og losna þá við svefnsýkina, sem ég hélt ég væri komin með. Það verður munur, þá fer ég kannski að vita hver er morðinginn í öllum glæpaþáttunum sem ég er alltaf að sofna útfrá.
Reyndar er einn eða tveir sérfræðingar í viðbót sem ég þarf að leita til við tækifæri. Jú, og svo er náttúrlega alltaf spurning með að athuga hvað Guðmundur lýtalæknir frændi minn treystir sér til að flikka upp á mig. Ef ég er í þessum læknagír hvort eð er. Augnpokarnir og svona.