Kröfuganga versus grænn te-ís
Ég fór ekki í göngu á 1. maí, reyndar er langt síðan ég fór síðast. Var reyndar niðri á Laugavegi nokkru áður en gangan fór hjá og var að hugsa um að slást í för. Fyrst ákvað ég samt að fá mér kaffi hjá Sandholt. Í því að ég lauk við kaffibollann heyrði ég að gangan var að nálgast og ætlaði að fara að standa upp - en þá birtist Ásgeir Sandholt með ís sem hann vildi gefa mér að smakka, grænan te-ís og mangóís. Maður neitar nú ekki svoleiðis freistingum og ég sat sem fastast og horfði á gönguna út um opnar dyrnar.
Ísinn var alveg ljómandi góður. Báðir tveir. Og óvenjulegur. Mér skildist á Ásgeiri að hann ætlaði að gera tilraunir í sumar með að bjóða upp á ýmsa nýstárlega ísa. Ég hlakka til.