Kærustur og kossaflens
Ég var að tala við dóttursoninn í síma í gærkvöldi og datt í hug að spyrja hann út í ástamál hans, sem hafa verið nokkuð fjörug, en ég hafði ekkert heyrt af þeim um tíma.
-Jú, ég á kærustu, sagði hann. -Það er hún X.
Það þóttu mér tíðindi þar sem þessi stúlka var líka kærastan hans fyrir mörgum vikum og ástarsamböndin hafa sjaldan enst svo lengi.
-Og áttu bara eina kærustu núna? spurði ég, minnug fyrra fjöllyndis hans.
-Já, sagði hann. -Y var sko kærastan mín í gær en ekki lengur. Hún var alltaf að reyna að kyssa mig og mér fannst það ekkert gaman svo að ég vildi ekki hafa hana fyrir kærustu.
-Sagðirðu henni að þú værir hættur að vera kærastinn hennar? spurði ég, forvitin um hvernig sex ára börn dömpa hvert öðru.
-Nei, ég sagði það ekkert, ég hugsaði það bara, sagði drengurinn og taldi það greinilega nægja. -Hún var sko alltaf að elta mig til að reyna að kyssa mig og ég þurfti að fela mig á bak við runna.
-Það hefur varla dugað, sagði ég. -Það eru engin lauf á runnunum núna svo að hún hefur séð þig og getað náð í þig til að kyssa þig.
-Nei, ég faldi mig sko á bak við tré, leiðrétti drengurinn sig. -Þá fann hún mig ekki. Og ég vil ekki hafa hana fyrir kærustuna mína lengur.
-En þú vilt eiga X fyrir kærustu? spurði ég.
-Já, sagði hann. -Hún er aldrei að reyna að kyssa mig. En Z, sem var kærastan mín í fyrra, hún var alltaf að kyssa mig líka.
Enda er það samband löngu búið. Eins gott fyrir stúlkur að vita það upp á framtíðina að drengurinn kann ekki að meta ágengt kvenfólk.