Bólusetningarraunir
Ég er að fara í ferð í vor þar sem mælt er með að maður láti bólusetja sig gegn einhverjum fjandans pestum. Lifrarbólgu og taugaveiki og guðmávitahverju. Boltastelpan (sem fer með) er búin að láta sprauta sig og rekur stíft eftir að ég geri það líka. Svo að eftir að hafa lesið í blaði í morgun að óttast sé að gestirnir í þrítugsafmælinu hjá Ashton Kutchner séu meira og minna lifrarbólgusmitaðir af því að einn þjónninn var með lifrarbólgu sá ég að það væri vissara að gera eitthvað í málinu, maður veit aldrei hvaða pestar marokkósku þjónarnir gætu verið með fyrst hollívúddþjónar smita fólk hægri vinstri. Svo að ég ákvað að hringja og panta tíma í sprautu.
Byrjaði á að gúgla ,,ferðamannabólusetningar", fór inn á síðu landlæknisembættisins og var vísað þaðan áfram á Miðstöð sóttvarna. Þar lendir maður inni á þessari síðu. Þar er gefinn upp sími sem ég hringdi í, kl. 14.45. Hann hringdi út svo að ég hélt mér hefði sést yfir einhverjar tímasetningar og leit aftur á síðuna. Neibb, þarna stóð bara ,,Tímapantanir eru á Miðstöð sóttvarna, s. 585 1390."
Ég fór inn á forsíðu miðstöðvarinnar en þar var bara gefinn upp sami sími og fyrir neðan stóð: ,, Almennur þjónustutími: alla virka daga frá kl. 8:20 til 16:15".
Ókei, hugsaði ég, bara svona mikið að gera hjá þeim kannski. Hringdi aftur og eftir allnokkrar hringingar var svarað á skiptiborði Heilsugæslunnar. Þar sem mér var sagt að tímapantanir væru eiginlega á milli 10-11 og 3-4 en þar sem klukkuna vantaði bara nokkrar mínútur í 3 væri ,,hún" kannski komin og mér var gefið samband. Einhver kona svaraði og stundi ,,æi, er klukkan orðin þrjú?" þegar hún heyrði erindið. Sagði mér svo að hringja eftir klukkan þrjú, hún tæki ekki pantanir fyrr. Ég sagði eitthvað um að þetta kæmi ekkert fram á heimasíðunni þeirra en hún sagði jú, það er þar víst, hún er bara svolítið ruglingsleg. (Þetta má vel vera rétt en ég finn þetta samt ekki enn ...)
Allt í lagi, ég var upptekin næsta hálftímann en hringdi aftur laust fyrir hálffjögur. Fékk samband við sama skiptiborðið og áður og sagði erindið.
-Geturðu hringt milli 10 og 11 í fyrramálið? spurði konan.
-Já, en ég hringdi áðan og var þá sagt að hringja á milli 3 og 4, sagði ég undrandi.
-Já, en í dag var það bara til 10 mínútur yfir 3, sagði skiptiborðskonan. -Hún þurfti að fara fyrr. Þú verður að hringja í fyrramálið.
Ég ákvað að vera ekkert að spyrja af hverju konan sem ekki vildi taka tímapöntunina nokkrum mínútum fyrir þrjú var ekkert að hafa fyrir því að segja mér að hún þyrfti svo að fara 10 mínútur yfir þrjú. Svo að ég þakkaði bara fyrir mig. Leist ekkert á að þurfa svo að hringja nokkrum sinnum í fyrramálið til að komast kannski að því að einhver væri ekki við.
Svo að ég hugsaði mig aðeins um, áttaði mig á að það væru líklega fleiri sem sæju um þetta, hringdi í nágranna mína á Heilsuverndarstöðinni, fékk skjót og góð svör og var eftir innan við fimm mínútur búin að panta mér sprautu við mænusótt, stífkrampa, barnaveiki, lifrarbólgu, taugaveiki og guðmávitahvaða pestum sem maður getur fengið í Marokkó.
Hver segir að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu þurfi alltaf að vera til bölvunar?