Bollur
Jæja, fyrsti vatnsdeigsbolluskammturinn kominn í ofninn, gerbolludeig að lyfta sér, mitt árlega bollukaffi semsagt í undirbúningi - Sauðargæran er búinn að koma nokkrum sinnum í eldhúsið að tékka á að allt sé undir kontról en aðspurður um hvort hann ætli ekki að hjálpa segir hann ævinlega ,,jú, á eftir" - líklega er hann meira spenntur fyrir fyllingum og skreytingum en sjálfum bollubakstrinum. Akkúrat núna er hann í boltasparki frammi á gangi; þrumar boltanum af miklum krafti í hurðina fram á stigapall. Eins gott að þetta er tuskubolti.
Bollurnar verða víst ekki með fallegasta móti í ár. Ég var nefnilega að komast að því að allir þeir stútar af köku/rjómasprautunum mínum sem henta fyrir bollugerð eru annaðhvort týndir eða ónýtir. En bollurnar verða líklega ætar fyrir því.
Fyrirfram ætla ég að giska á að Nóakroppsbollurnar verði vinsælastar í ár. Allavega hjá yngri kynslóðinni.
Hana, þá pípir ofninn - best að taka út eina bollu og gá hvort hún fellur nokkuð.