Ómissandi dót
Hvernig stendur á því að alltaf þegar sagt er í Sjónvarpsmarkaðnum (eða hvað það nú heitir aftur núna - jú, Vörutorg líklega.): ,,Hver kannast ekki við ..." (og það er nokkuð oft), þá er það eitthvað sem ég kannast afskaplega lítið við?
Sennilega er ég þess ekki umkominn að ráðleggja fólki um eitt eða neitt í eldhúsinu - eða lífinu yfirleitt - af því að ég þekki ekki öll þessi ofboðslega algengu vandamál sem allir kannast víst við nema ég.
Hvernig stendur á því að alltaf þegar talað er um einhvern heimsþekktan framleiðanda á eldhúsdóti kannast ég ekkert við hann? (Nema hvað ég hef séð því haldið fram að hann sé ekki til. Sama og með Berghaus.)
Hvernig stendur á því að ég á ekki neitt af öllu þessu bráðnauðsynlega dóti sem þarf að vera til á hverju menningarheimili? (Og langar ekkert sérstaklega í það.)
Er orðstír minn sem matargúrús og eldhúsgyðju í stórhættu? Þarf ég að draga upp Vísakortið og panta mér kandíflossvél?
En hey, ég slæ nú bara sjónvarpsmörkuðunum við á öðrum sviðum. Ég á til dæmis sérstakar vínberjaklippur. Þær hef ég aldrei séð auglýstar í sjónvarpi.