Plan og Plan B
Ég átti erindi upp á Höfða eftir vinnu og áttaði mig á því í strætó á leið uppeftir að ég hafði gleymt lyklunum mínum í vinnunni. Hringdi í einkasoninn, sem var að vinna en sagðist vera með lykla að Grettisgötunni á sér og ég skyldi bara koma við í Te og kaffi og ná í þá.
Ég var lengur uppfrá en ég hafði ætlað mér, keypti í kvöldmatinn og svo eitthvert níðþungt dót á útsölu í Húsgagnahöllinni, og í strætó á heimleiðinni áttaði ég mig á því að ég hefði nauman tíma til að elda það sem ég hafði ætlað að gera (fjölskyldan að koma í mat eins og flesta miðvikudaga). Svo að þegar vagninn nálgaðist Hlemm fór ég að hugleiða hvernig ég gæti flýtt fyrir mér.
-Látum okkur sjá, hugsaði ég. -Jú, nú veit ég. Ég fer heim og losa mig við það sem ég keypti, kveiki á ofninum og skrepp svo á meðan hann hitnar til Hjalta að ná í lykl ...
Úbbs. Spot the flaw in this plan.
Á endanum var ég svo sein fyrir að einkasonurinn var búinn að klára fráganginn. Þannig að ég lét hann halda á þunga dótinu og svo var það bara Plan B - kom semsagt við í Bónus og keypti eitthvað öllu fljótlegra í matinn. Kjúklingabringur alltsvo. Sem ég fyllti með fetaosti, jalapeno-osti, rósmaríni, vorlauk og paprikumauki, brúnaði á pönnu og steikti svo í ofni. Aldrei þessu vant voru allir á því að þetta væri gott. Barnabörnin líka. Og það er ekki algengt.