Bakaðar baunir og vodkapönnukökur
Þegar ég var á heimleið úr vinnunni í dag gekk ég um Austurstrætið eins og venjulega og flaug allt í einu í hug, þegar ég var að ganga framhjá Eymundsson, að skjótast þar inn þótt ég hefði alls ekki ætlað mér það. Og viti menn: það fyrsta sem ég rak augun í var fullt borð af matreiðslubókum á útsölu.
Þetta eru forlögin, gott fólk. Og svo fékk ég sendingu frá Amazon í gær en þar voru reyndar ekki aðrar matreiðslubækur en Heinz Baked Beans og The Vodka Cookbook. Í þeirri fyrrnefndu kemur fram að fyrstu Heinz bökuðu baunadósirnar voru seldar í sælkerabúðinni Fortnum & Mason árið 1901 því þá voru bakaðar baunir lúxusvara. Reyndar fórum við gagnlega barnið einmitt í Fortnum og Mason fyrir jólin og þar var þá heil stæða af Heinz bökuðum baunum. En ég var nú bara að kaupa 40 ára balsamedik, Stiltonost fyrir Þorláksmessuboðið og fleira slíkt. Engar bakaðar baunir.
Í vodkamatreiðslubókinni er m.a. uppskrift að vodkapönnukökum. Ég man nú ekki betur en slíkar hafi einmitt verið steiktar á herbergi 47 á heimavist MA hér í eina tíð, þegar kökudroparnir kláruðust. Og þóttu góðar.