Jólin bara búin
Þrettándinn í dag. Jólin bara búin og ég þarf að fara að tína jólaskrautið af trénu, sem var þó aldrei búið að skreyta almennilega - þegar Boltastelpan var að hjálpa mér að undirbúa Þorláksmessuboðið var serían eitthvað fyrir henni og hún tók hana og henti henni einhvernveginn yfir jólatréð. Við það fór serían (sem ég var búin að eyða löngum tíma í að greiða úr) náttúrlega í flækju; ég var eitthvað að reyna að laga hana í Þorláksmessuboðinu en gestirnir hlógu að mér. Svo að ég gaf það upp á bátinn í bili og svo sá ég einhvernveginn ekki ástæðu til að gera meira þannig að serían er búin að hanga, liggur við í kippum, á trénu öll jólin. Og enginn gert athugasemd við það - ekki að margir hafi séð hana svosem.
Sauðargæran tók svo að sér að skreyta tréð en beit í sig að hann vildi bara hafa kúlur, ekkert annað skraut, og ekki hvaða kúlur sem er. Ég á fulla körfu af alls konar skrauti sem hefur safnast að mér smátt og smátt á liðnum áratugum (engin stílhrein tré með svörtu skrauti hér!) en hann leit semsagt ekki við því. Nema hvað ein hlið á trénu er þakin kúlum, minna á öðrum hliðum, því drenginn þraut örendið og hann tilkynnti: -Ég er farinn í tölvuna, amma. Ég reyndi að fá önnur börn í Þorláksmessuboðinu til að ljúka verkinu en þau höfðu líka meiri áhuga á Leikjalandi.
Þannig að dreifing á bæði ljósi og skrauti hefur verið allmisjöfn þessi jólin og nú er semsagt allt að fara aftur í körfuna. Og trénu verður hent út af svölunum í kvöld eða fyrramálið og dröslað út á gangstétt.
Kann annars einhver skýringuna á því af hverju jóladagarnir eru sumstaðar taldir tólf (the 12 days of Christmas) og annars staðar 13 (og væru reyndar 14 ef aðfangadagur væri talinn með)?
Já, og blessunin hún Nigella á afmæli í dag. 48 ára.