Framsóknargúllas
Ég er að fara að elda töluverðan slatta af ungverskri gúllassúpu á morgun og fór í Nóatún að kaupa kjöt. Sagði að mig vantaði ódýrt nautakjöt í súpu og var boðið nautagúllas á rétt tæpar tvö þúsund krónur kílóið. Ég fitjaði upp á trýnið og spurði hvort væri virkilega ekki til nautaskanki eða eitthvað slíkt. Jú, líklega var til osso buco á bakvið. Það leist mér betur á því það er ekki bara ódýrasta kjötið sem völ er á í gúllassúpu, heldur líka eitthvert það besta.
Gúllassúpa á nefnilega að malla lengi og það á að nota kjöt sem inniheldur mikið af bandvef, sem smátt og smátt leysist upp við hæga suðuna og skilar bæði fyllingu og bragði í súpuna um leið og kjötið sjálft verður ótrúlega meyrt. - Það er svosem alveg hægt að elda þokkalegustu súpu úr sæmilega meyru nautagúllasi sem er soðið í innan við klukkutíma en það verður ekki almennileg gúllassúpa.
Þar sem ég var að labba heim með sex kíló af nautaskönkum og sirka tíu kíló af grænmeti í súpuna, þá rifjaðist upp fyrir mér þegar Framsóknarflokkurinn keypti umfjöllun í Gestgjafanum fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þá komu efstu frambjóðendur í Reykjavík (sem nú eru allir horfnir af sjónarsviðinu ef ég man rétt) saman og elduðu gúllassúpu. Í hana var notuð nautalund, hvorki meira né minna. Það er náttúrlega eyðilegging - ekki bara á nautalundinni, heldur á gúllassúpunni líka.
En svolítið Reykjavíkurframsóknarlegt samt. Flokkurinn borgaði ...