Túrtappafyllírí er bara fyrir hænuhausa
Ég sé að þjóðsagan um vodkatúrtappana er aftur komin á kreik.
Jú, það getur svosem verið að einhverjir hafi einhverntíma prófað þetta. Fólk prófar allan skrattann. Sérstaklega unglingar, ekki ætla ég að fara að upplýsa hvað ég var að prófa á mínum sokkabandsárum. En þeir sem trúa því í alvöru að þetta sé algengt eða almennt stundað eða beri árangur hafa aldrei notað túrtappa.
Ekkert mál að setja þurran túrtappa á sinn stað. En hvernig haldið þið, stelpur, að sé að troða bómullartappa þrútnum af vökva uppí aðskiljanleg göt á skrokknum? Og við erum ekkert að tala um einhverja mínítappa, ekki ef fólk ætlar að verða fullt. Regular-tappinn getur haldið 6-9 grömmum af vökva (hér erum við að tala um OB-tappa en aðrir eru svipaðir). Stærsti tappinn, Ultra absorbency, heldur í sér 15-18 grömmum og tútnar við það ansi hreint mikið út. Alveg helling satt að segja. Einn einfaldur vodkasjúss dugir semsagt í tvo tappa. Ég veit ekki hvert uppsogshlutfallið yrði, varla 100%, en það tæki örugglega þónokkurn tíma að ná þokkalegu hlutfalli. Hvað þyrfti þá að skipta oft um tappa og hvað þyrfti að nota marga til að verða sæmilega drukkin/n?
Fyrir utan að ég held, án þess að hafa áhuga á að prófa, að óblandað áfengi (geri ekki ráð fyrir að neinn færi að bæta við kóki) hafi vond og sársaukafull áhrif á viðkvæmar slímhimnur.
En ef einhver vill reyna þetta ...