Sukk og súkkulaði
Af engu sérstöku tilefni, þá er hér uppskrift að súkkulaði-mascarponebökunni sem ég hafði sem eftirmat í gær. Hún er ekki fyrir fólk sem er í aðhaldi eftir jólasukkið, ónei. Botninn er smjördeig en hefði líka allt eins getað verið bökudeig. Það er samt ekkert að ráði hollara.
Súkkulaði-mascarponebaka
1 pakki smjördeig (útflatt eða frosið)
1 eggjarauða
250 g mascarponeostur, mjúkur
75 g flórsykur, eða eftir smekk
2 egg
150 g súkkulaði, 70%
1 tsk vanilluessens
ber til skreytingar
Ofninn hitaður í 200°C. Deigið látið þiðna ef það er frosið og flatt út í hring. Lagt yfir bökumót (helst lausbotna) og brúnirnar snyrtar. Farg sett á miðjuna (ég setti bökunarpappír og svo annað minna bökuform sem ég setti farg í). Brúnirnar penslaðar með eggjarauðu og svo er deigskelin bökuð í um 10 mínútur. Tekin út, fargið fjarlægt, botninn penslaður með eggjarauðu og skelin sett aftur í ofninn og bökuð í um 6 mínútur. Látin kólna.
Mascarponeosturinn hrærður með flórsykri og eggjum. Súkkulaðið brætt í vatnsbaði og hrært saman við ásamt vanilluessensinum. Hellt í bökuskelina, skreytt t.d. með rifsbejum og hindberjum, og kælt vel.