Jónas og sjóræningjarnir
Þótt Sauðargæran sé upptekinn af sjóræningjabókum um þessar mundir er ekki þar með sagt að hann hafi ekki vit á öðrum bókmenntum.
Þau systkinin voru hjá mér í dálitla stund í gær fyrir matinn. Lenti eitthvað saman eins og stundum gerist og drengurinn kom grenjandi fram í eldhús. Hann var frekar óhuggandi og ég brá á það ráð að syngja fyrir hann (sem ég geri mjög sjaldan). Hættu að gráta, hringaná.
Drengurinn hætti fljótlega að gráta og fór að hlusta á textann af athygli. Kannaðist ekkert við þetta og sagðist aldrei hafa heyrt það fyrr (sennilega lygi).
-Er þetta eftir Jónas, spurði hann svo.
-Já, hvernig vissirðu það? spurði amman.
-Ég veit það bara, sagði drengurinn og hélt áfram að tala kunnuglega um Jónas og kveðskap hans.
Svo fór hann að velta textanum fyrir sér og var mjög upptekinn af þessum Grími. Ég þurfti að fullvissa hann hvað eftir annað um að Grímur væri löngu dauður og hann þyrfti ekkert að óttast um tærnar á sér fyrir honum. Og að Grímur hefði ekki verið pabbi Jónasar; það hefði verið allt annar Grímur.
En hann var samt mun smeykari við Grím en nokkurn sjóræningja.