Úfinn sjúklingur
Ég hringdi í einkasoninn til að fá fréttir af heilsufari hans ef hægt væri; hringdi reyndar í gær en þá var hann nánast ófær um að koma upp orði vegna bólgu í hálsi. (Fór mamma hans í sjúkraheimsókn til aumingja veika drengsins, fimm mínútna göngu? ónei, lét það eiga sig. Og það þótt tengdadóttirin sé í brúðkaupi á Akureyri og enginn til að hjúkra sjúklingnum.)
Núna var hann heldur skárri og það var komið upp úr dúrnum að hann er með sýkingu í úf; úfurinn bólgnaði svo að hann stíflaði næstum kokið og er enn bærilega bólginn en eitthvað farinn að minnka.
Ég náttúrlega stakk samstundis upp á að sjúklingurinn leitaði til úfskurðarmanns, ef slíkir eru enn til, og léti ráða bót á þessu með drastískum hætti. Lýsti fyrir honum hvernig sérlegir úfskerar fóru áður um sveitir landsins með úfskurðarjárn sín, ráku þau oní kok á börnum og unglingum eða hverjum sem fyrir varð og ekki hafði þegar gengist undir úfnám og skáru úfinn burt með tilheyrandi blóðflæði. (Og sýkingum og harmkvæladauða í kjölfarið ef því var að skipta.) En þetta var líklega fyrirbyggjandi læknisaðgerð þeirra tíma því úfurinn var talinn geta orsakað ýmsa sjúkdóma. Fyrirbyggir allavega úfbólgu af því tagi sem var nærri búin að kæfa blessaðan drenginn minn.
Drengnum leist þó ekki á að gangast undir úfskurð eins og hann var hvattur til; sagðist ætla að treysta á pensilínið sem tengdamóðir hans hafði látið hann fá reseft fyrir.