Nennessekki
Þeir sem eru með bók á jólabókamarkaðnum eru náttúrlega flestir á kafi í plöggi út um allt - eða láta aðra sjá um það fyrir sig - eða slá allavega ekki hendinni á móti fjölmiðlaumfjöllun, hversu lítilvæg sem hún er. Nema auðvitað ef þeir heita Arnaldur. Eða Nanna, kannski - það var hringt í mig í dag og ég beðin um uppskrift fyrir tímarit en mér finnst ég vera svo rækilega plögguð og ofnotuð þessa dagana að ég ákvað að feta í fótspor Arnaldar og afþakkaði. Jæja, reyndar held ég að ég sé að verða veik, það spilaði inn í ...
Að vísu á ég von á ljósmyndara á morgun. Og þarf að skila einhverjum greinum. Svo að ég má ekkert vera að því að vera veik.
Ég gerði heiðarlega tilraun til þess í gær að kaupa Þorláksmessulærið en það er eitthvað snautt um svínslæri í höfuðborginni á sunnudagskvöldum svo að ég geri aðra tilraun á morgun. Fór svo í jólaklippinguna mína áðan. Kom við í Heilsuhúsinu í leiðinni að kaupa mér ítalska jólaköku. Er búin að taka jólaskrautskörfuna ofan af skáp og er jafnvel að hugsa um að hengja upp seríuna með feitu asnalegu jólasveinunum á eftir.
Þannig að ég er bara víst byrjuð að undirbúa jólin. Þótt ég nenni því eiginlega ekki.