Erðanú óréttlæti ... og svoleiðis stærðfræði
Ég er náttúrlega sármóðguð fyrir hönd barnabarnsins út í Mannlíf þar sem hennar nafn er það eina sem ekki er feitletrað í þessari frétt á Mannlífsvefnum.
Ég meina, hvers eiga fótboltaiðkandi bakarísstarfskraftar á fjórtánda ári að gjalda? Eða á ég að vera femínískt móðguð yfir því að nafn eina kvenmannsins í hópi tíu efstu forsetaframboðskandídata skuli ekki vera feitletrað?
Já, það er málið. Karlremba og ekkert annað.
Bróðir hennar sagði mér í gær að hann væri farinn að læra stærðfræði í skólanum.
-Og veistu þá hvað einn plús einn er? spurði amman.
Drengurinn horfði stórhneykslaður á mig.
-Þetta er ekki svoleiðis stærðfræði, amma, sagði hann svo.
En ég fékk ekki uppúr honum hvurslags stærðfræði hann væri þá að læra.