Þunglyndismatur
Ég eldaði risotto handa okkur einkasyninum í kvöldmatinn (hann er oft í mat þessa dagana því að tengdadóttirin er í Rússlandi að keppa í sverðfimi). Bara plein risotto með rósmaríni og fullt af nýrifnum parmigiano. Namminamm.
Þunglyndismatur, sagði drengurinn. Í jákvæðri merkingu.
Og það rifjaðist upp fyrir mér þegar við Valentína leiðsögukona sátum á barnum á hótelinu í Pétursborg yfir ómældu vodka og síldarsalati keyptu í rússneskri kjörbúð og hún sagði allt í einu með djúpan vonleysisþunga í röddinni:
-Nobody knows pain like the Russians.
Þá held ég að hefði verið gott að skipta síldarsalatinu út fyrir risotto.