Ein ég sit og sauma - nei, í textílmennt ...
Ég sat hér áðan og var að reyna að kenna forsetaframbjóðandanum að prjóna. Það gekk út af fyrir sig ágætlega - eða allavega mun betur en henni fannst sjálfri - en hún var frekar pirruð, enda var það ekki vettlingaprjón sem hafði vakað fyrir henni þegar hún skráði sig í textílmennt í valgrein. Á endanum stundi hún:
-Hver fann eiginlega upp á þessu asnalega prjóni?
Ég man fyrir víst að ég var ekki námfúsari en hún á sínum tíma þegar prjónaskapur var annars vegar. Seinna átti ég þó eftir að prjóna töluvert þótt ég hafi núna varla snert á því í mjög mörg ár. Allavega prjónaði ég bæði peysur á sjálfa mig og fullt af barnafötum í menntaskóla og var hreint ekki ein um það, við prjónuðum mikið á þeim árum en tímarnir voru þó misdrjúgir til prjónaskapar, íslensku- og þó einkum sögutímar nýttust oft vel. Kennarar litu líka prjónaskap í tímum mishýru auga; einhver kennari minnir mig að hafi lýst því yfir að þær einar mættu prjóna sem væru óléttar. En prjónaglamrið minnkaði lítið við það því að þetta voru frjósamir árgangar.
Mér finnst samt einkennilegt að heyra að handavinnu-(afsakið, textílmennta-)kennari Boltastelpunnar sagði henni að hún yrði að læra að prjóna því að hún þyrfti að geta prjónað vettlinga á börnin sín. Slík rök bíta lítið á hana. Í fyrsta lagi hefur stúlkan alls ekki í hyggju að eignast nein börn og í öðru lagi veit hún að það fást afbragsvettlingar í búðum. Enda hefur móðir hennar ekki lagt vettlingaprjón fyrir sig og amman ekki heldur. Ekki síðustu 30 árin allavega. Frekar að langamman hafi komið þar til skjalanna og séð henni fyrir vettlingum.
Ég fór að bródera um daginn, kannski ég taki upp prjónana næst?
Nei, ég held annars ekki.