Hlýja hjónasængur rifjuð upp
Hildigunnur var að spyrja um hjónasæng. Ég rifjaði upp það sem ég mundi en kannski muna einhverjir ættingjar mínir betur (eða það er ekkert kannski með það, ættingjar mínir muna alltaf allt betur en ég) svo að ég ákvað að setja þessa punkta hér líka.
Það sem ég man (og nota enn, t.d. þegar ég spila hjónasæng við dótturdótturina) er þetta:
Við notuðum allan spilastokkinn og byrjuðum á að spila ákveðið spil þar sem markmiðið var að losa sig við öll spilin. Sá sem fyrstur var til þess lenti í hjónasænginni og spilið sem hann setti seinast frá sér var það sem stoppað var við hverju sinni. Svo átti hver hinna spilamannanna að velja karlmann eða konu, eftir því sem við átti (og maður valdi sér líka einhvern sjálfur, það gat nú verið vandamál), og byrjað á að gefa spilamönnum eitt spil í einu þar til kom að stoppspilinu. Þá lenti maður í hjónasæng með þeim sem sá sem fékk stoppspilið hafði valið handa manni.
Þulurnar sem ég man eru þessar:
Hvernig biðillinn kom til að biðja manns (eða hvernig maður fór sjálfur ef sá sem lenti í hjónasænginni var strákur):
Akandi, ríðandi, gangandi, skríðandi, fjósbörum, hjólbörum, bíl.
Hvar maður var staddur þegar biðillinn kom:
Á hlaðinu, við dyrnar, í dyrunum, forstofunni, stofunni, við rúmið, í rúminu.
Svo var bónorðið borið upp og dregið spil: rautt fyrir já, svart fyrir nei. Ef svarið var nei varð spilið ekki lengra og byrjað aftur upp á nýtt.
Mig minnir að við höfum verið með þulu fyrir brúðarkjólinn en man hana ekki. En svo var hringurinn:
Gull, silfur, kopar, eir.
Svo var spurning hvar brúðguminn lenti þegar hann skreið uppí á brúðkaupsnóttina.
Koppurinn, stokkurinn, sængin.
Og búseta ungu hjónanna:
Hús, kofi, hreysi, höll.
Svo var endað á að athuga hvernig ástir brúðhjónanna urðu:
Hann elskar hana (eða hún elskar hann) af öllu hjarta, yfirmáta ofurheitt, harla lítið, ekki neitt.
Kannski var eitthvað fleira en ég man ekki eftir að við höfum t.d. verið með neitt um stöðu og starf brúðgumans.