Pissudrama á Grettisgötunni
Megadrama í gangi hér úti á götu áðan.
Einhverjum róna verður mál og hann ákveður að pissa þar sem hann er kominn. (Þótt það sé alveg rétt sem Lilló segir um okkur venjulega miðbæjarfólkið, við ælum og pissum heima hjá okkur svo að það er yfirleitt úthverfafólkið og utanbæjarmennirnir sem gera svoleiðis úti á götu hér í miðbænum, þá eru rónarnir undanskildir. Þótt þeir búi í miðbænum.)
Einn nágranni minn er ekkert sáttur við þetta og kemur út með forláta myndavél og fer að mynda rónann við að pissa. Ekki veit ég hvers vegna. Kannski til að setja myndina á bloggið sitt eða eitthvað, nema ég gerði nú ekkert ráð fyrir að róninn mundi kippa sér upp við það.
En róninn er kannski eitthvað spéhræddari eða siðvandari en fara gerir um róna almennt (þótt val hans á pissustað, hér á miðri Grettisgötu, geti bent í aðra átt) og fer að mótmæla myndatökunum. Úr þessu verður hávaðarifrildi sem lýkur með því að nágranninn hjólar í rónann og missir við það fínu myndavélina sína í götuna.
Hann verður náttúrlega ekkert mjög glaður við það og kennir rónanum um allt saman. En róninn er þá akkúrat búinn að pissa og gengur í burtu. Nágranninn reynir eitthvað að elta og hefur hátt. En svo sér hann að sér, snýr við og fer að bogra undir bíla til að safna saman pörtum úr myndavélinni.
Mórall: Ef maður ætlar að sitja um róna, úthverfabúa og utanbæjarmenn að pissa í hverfinu sínu er best að hafa einnota myndavél til taks. Eða allavega gera upp við sig hvort maður ætlar að mynda pissarann eða berja hann.
Smáöppdeit: Róninn var víst að spræna inn um gluggann hjá nágrannanum þannig að það er vel skiljanlegt að fyki í hann - en ég hefði samt ekki tekið myndavélina með út.