Allur pakkinn
Ég sendi póstinum fyrirspurn um sendingu sem ég fékk tilkynningu frá Tollmiðlun um 4. sept og sendi upplýsingar um samdægurs; og reyndar aftur tveimur dögum seinna af því að ég var ekki viss um að ég hefði sent upplýsingar um rétta sendingu (sem reyndist þó vera). Síðan hefur ekkert gerst og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Póstsins er eins og sendingin hafi ekki verið tollafgreidd, þaðanafsíður sett á útkeyrslulista; þar er bara skráð að tilkynning hafi verið send mér. Þannig að ég spurði hvort vantaði kannski einhver frekari gögn.
Merkilegt nokk, þá fékk ég samdægurs svar frá póstinum (það er munur eða DHL, sem enn hefur ekki svarað fyrirspurn sem ég sendi til þeirra í apríl). Þar segir að búið sé að tollafgreiða sendinguna en ,,vegna tafa í útkeyrslunni hefur ekki verið unnt að keyra sendinguna út en ég vonast til að það verði á næstu dögum."
Sem sagt, rúmri viku eftir að ég sendi póstinum ígildi vörureiknings getur verið að ég fái pakkann á næstu dögum. Mögulega fyrir helgi ef ég er heppin. Eins gott að mér liggur ekkert sérstaklega á þessu ...
Ég efast ekkert um að póstinn bráðvanti menn í útkeyrsluna. En samt.