Járnbrókin
Sauðargæran (sem var hæstánægður með dvölina hjá mér og hesthúsaði að minnsta kosti tólf eplaskífur) horfði á báðar bíómyndirnar sem í boði voru af miklum áhuga og þurfti margs að spyrja. Einkum var þó ein spurning áleitin þegar líða tók á myndina um Hróa hött:
-Fer hún einhvern tíma úr járnbrókinni?
Þar átti hann við skírlífisbelti jómfrú Marian. Ég gaf nú eitthvað lítið út á það, hafði ekki séð myndina lengi og mundi ekki hvernig það fór. En svo var þar komið undir lok myndarinnar, í miðjum sverðabardaga Hróa og fógetans, að lykill flaug þvert yfir herbergið og hafnaði í lásnum á beltinu. Þá urðum við sammála um að jú, líklega slyppi jómfrúin fyrir rest úr járnbrókinni. Þegar sú niðurstaða var komin hallaði drengurinn sér upp að mér og hvíslaði:
-Sést það?
En svo varð honum ekki að ósk sinni því að á endanum reyndist lykillinn ekki passa og Hrói þurfti að kalla út lásasmið.